Almennt um starfsemina á árinu 2023
Sumarið og haustið 2023 var unnið með hefðbundnum hætti við söfnun á blóði til vinnslu á lokaafurð Ísteka sem er eCG/PMSG hormónið, mikilvægur valkostur fyrir bændur um allan heim sem vilja nýta náttúruna með sem hagkvæmustum hætti, sér og öðrum til velmegunar.
Í vor var hestum, nú sem endranær, sleppt í hólf á tímabilinu frá um 23. maí til um 10. júní. Blóðtökur hófust um miðjan júlí og stóðu yfir til upphafsdaga október.
Fjöldi blóðtökuhryssna í ár var 4.088 og heildarfjöldi hryssna í stóðum bænda 4.748. Meðalhryssa í stóðum bænda gaf blóð í 5,1 skipti í ár en 6,1 sé eingöngu litið til þeirra sem fyljuðust og gáfu blóð. Er þetta heldur betri árangur en á seinasta ári sem þó taldist vera góður. Alls var tekið blóð í ríflega 24 þúsund skipti. Starfsstöðvar voru um 90 í ár eins og í fyrra.
Árangur hryssna 2023
Hér að neðan má sjá hlutfallslega dreifingu á fjölda blóðtökuskipta hjá hryssum árið 2023. Meðaltal áranna 2018-2022 til samanburðar og staðalfrávik milli ára í sviga.
Skiptafjöldi hryssu | Hlutfall 2023 | Meðalhlutfall árin 2018-2022 (staðalfrávik milli ára í sviga) |
1 | 0,2% | 1,7% (0,9) |
2 | 5,5% | 6,5% (0,6) |
3 | 8,2% | 8,6% (1,2) |
4 | 7,1% | 8,4% (0,7) |
5 | 9,2% | 11,9% (1,3) |
6 | 15,1% | 15,3% (1,0) |
7 | 33,0% | 30,5% (1,8) |
8 | 21,7% | 17,2% (2,6) |
Hlutfall úrvalsgóðra hryssna hvað varðar þann þátt sem hér er verið að vinna með, (gefa blóð 7 og/eða 8 sinnum), fer enn stækkandi. Hlutfall þeirra var 54,7% á nýliðnu tímabili en 47,7% að meðaltali á viðmiðunartímabilinu. Bændur stunda kröftuga framþróun í þessum búskap sem lýtur jú sömu lögmálum og annar búskapur, afurðir hámarkaðar með sem fæstum gripum. Frjósemi þeirra og heilsa spilar þar lykilhlutverk.
Frjósemi hryssnanna í ár var yfir 85% sem er töluvert betri en sést almennt í hrossarækt (70-80%). Blóðnytjabúskapurinn kemur einnig vel út í flestum öðrum samanburði, svo sem í almennu heilsufari stofnsins og í þroska folaldanna.
Framleiðslumagn og heimtur
Magn blóðs sem safnað er árlega stóð að mestu í stað á milli áranna 2022 og 2023 eftir sögulegan samdrátt milli áranna 2021 og 2022. Nýtt greiðslukerfi sem sett var upp í fyrra hefur sannað ágæti sitt og var skilaverð blóðs úr meðalhryssu um 112 þúsund krónur án vsk. í ár miðað við 95 þúsund krónur í fyrra.
Eftirlit með blóðsöfnuninni á árinu
Eftirlitsdýralæknir Ísteka heimsótti um 40% starfsstöðva á tímabilinu auk heimsókna að vetri til. Einnig heimsóttu eftirlitsaðilar á vegum erlendra kaupenda á lyfjaefni Ísteka um þriðjung bænda auk þess sem fyrirtækið hefur haft af því spurnir að MAST hafi heimsótt alla aðila á tímabilinu, nú annað árið í röð. Eftirlit með blóðsöfnun hefur löngum verið mikið og var aukið enn frekar árið 2022 í kjölfar myndbandsútgáfu öfgasamtaka. Blóðtaka fer fram 12 dagsparta ár hvert hjá hverjum bónda og byggt á ofangreindum tölum um eftirlitstíðni hefur meðalbóndinn mátt eiga von á um tveimur formlegum eftirlitsheimsóknum í ár á þessu 12 daga tímabili. Þar að auki hafa dýrlæknar og starfsmenn Ísteka eftirlit með öllum blóðtökunum og skrifa blóðtökuskýrslu sem er rýnd og fylgt eftir til að bæta framkvæmdina ef þörf er á.
Tilkynnt frávik við blóðsöfnun
Frávik kallast atburðir eða aðstæður sem upp koma og geta haft áhrif á líðan hryssu. Í ár var í annað sinn haldið skipulega utan um frávik í blóðtökuskýrslu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 900/2022 um blóðtöku úr fylfullum hryssum.
Blóðtökuskýrsla er fyllt út af dýralækni og fulltrúa Ísteka fyrir hvern blóðtökudag á hverjum bæ fyrir sig. Heildarfjöldi skýrslna í ár var 937. Fimmtán skýrslur skiluðu sér ekki til skráningar. Heimtur voru því rúmlega 98%.
Af ríflega 24.000 blóðtökum voru skráð frávik í 144 tilvika (0,6%). Langflest tilvik voru skráð vegna hryssna sem sýndu streitueinkenni. Meirihluti þeirra jafnaði sig (róaðist) strax eða meðan á dvöl í bás stóð. Endurtekin frávik voru skráð hjá 18 hryssum, fjórtán með 2 frávik og fjórar með 3 frávik. Ráðleggingar Ísteka eru að eigendur hryssna, þar sem skráð eru frávik þrisvar sinnum eða oftar, þjálfi hryssuna betur áður en hún er tekin til blóðtöku aftur eða finni henni nýtt framtíðarhlutverk.
Fyrir mistök gáfu tvær hryssur blóð 9 sinnum. Þeim varð ekki meint af því.
Eitt tilvik var skráð á tímabilinu undir liðnum „ofbeiting valds“ og varðaði ungan vinnumann sem fékk í kjölfarið tiltal. Hrossum var ekki hætta búin af frávikinu en Ísteka lítur það þó alvarlegum augum og brýnir fyrir öllum að höfuðáhersla sé ávallt lögð á virðingu og nærgætni í umgengni við hryssurnar.
Tilkynnt slys, veikindi og dauðsföll
Um langt árabil hefur verið haldið utan um slys, veikindi og dauðsföll gripa.
Skráð slys á hrossum á blóðtökutímabilinu voru ellefu. Af þeim tengdust tvö blóðtökum en hin níu varða atburði sem gerðust í millitíðinni.
Sautján tilkynningar voru um veikindi. Af þeim tengdust níu blóðtöku viðkomandi grips. Í öllum tilfellum jafnaði hryssa sig fljótt og vel, ýmist með eða án aðkomu dýralæknis.
Á blóðtökutímabilinu var alls tilkynnt um sex hryssur sem drápust. Ekkert þessara tilvika var hægt að tengja með beinum hætti við blóðtökur. Ekki var tilkynnt um að nein folöld hefðu drepist. Flokkun þessara tilvika. má sjá í töflunni hér að neðan.
Fjöldi dauðsfalla | Þar af tengd blóðtöku | Þar af ekki tengd blóðtöku | Þar af óvíst hvort tengist blóðtöku | |
Sýnahryssur | 2 | 0 | 2 | 0 |
Blóðtökuhryssur | 4 | 0 | 1 | 3 |
Samtals | 6 | 0 | 3 | 3 |
Af þeim fjórum tilvikum þar sem blóðtökuhryssur drápust voru þrjár krufnar. Niðurstaðan í einni krufningu var afgerandi um að dauðasök tengdist ekki blóðtökunni (hrossasótt), en í hinum tveimur tilvikunum fékkst ekki skýring á dánarorsök og þar með ekki hvort hún tengdist blóðtöku. Ein blóðtökuhryssa var ekki krufin, sú drapst um þremur vikum eftir seinustu blóðgjöf sína.
Niðurstöður blóðrauðarannsókna
Í samræmi við reglugerð 900/2022 voru tekin sýni í ár og blóðrauði í þeim mældur af opinberri rannsóknarstofu. Að frumkvæði rannsóknarstofunnar sem sá um mælingarnar og með samþykki MAST var hér einblínt á hryssur á þeim tíma í blóðtökum sem líklegast er að þéttni blóðrauða hjá þeim sé hvað lægstur og er rannsóknin að því leyti frábrugðin fyrri rannsóknum sem hafa skoðað fleiri punkta yfir allan blóðtökuferilinn. Tekin voru sýni úr 132 hryssum á fjórum bæjum jafnt sunnan lands og norðan (4% þeirra hryssna sem uppfylltu skilyrði um blóðtökuskipti). Meðalgildi blóðrauða í þessum lægsta punkti var 10,5 g/dl með staðalfrávikinu 1,1. Lang lægsta gildið sem mældist var 7,2. Einu útlægu gildi, 19,6, var sleppt fyrir útreikninga en þar er líklega um ónýtt sýni að ræða. Gott samræmi var á milli gilda úr mælingum opinberu rannsóknarstofunnar og úr systursýnum sem Ísteka mældi. Ágætur samhljómur er með niðurstöðum þessum og fyrri mælingum Ísteka á sama tímapunkti sem hafa verið gerðar s.l. tvo áratugi.
Um eigin hross
Ísteka var með 5 hópa í blóðnytjum á þremur stöðum á árinu, alls um 300 hryssur eða rúm 6% af heildarfjölda hryssna. Meðalhryssan í stóðum Ísteka gaf 5,9 einingar og 6,6 sé eingöngu miðað við fyljaðar hryssur. Þetta er nokkuð yfir landsmeðaltalinu sem var sem fyrr sagði 5,1 og 6,1 í sömu röð.
Helstu frávik og atburðir í hópum Ísteka þetta ár voru eftirfarandi:
Tvö hræ, líklega frá síðasta vetri eða fyrr, fundust í landi sem tilheyrir Ísteka. Orsök dauða var ekki hægt að lesa af umhverfinu. Ein hryssa drapst á blóðtökutímabilinu og er tiltekin í töflu hér framar. Sár var saumað á hryssu sem kom inn til blóðtöku. Þrátt fyrir átak í hófhirðu fyrir blóðsöfnunartímabil höfðu hófar á nokkrum hryssum vaxið full ríflega þegar á tímabilið leið og var við því brugðist jafnóðum. Ein hryssa hvarf úr blóðtökuhópi áður en hún hafði gefið blóð þetta tímabilið. Leitað var að henni ríðandi og með dróna en leitin bar ekki árangur. Ein grönn hryssa var tekin úr blóðtökuhópi. Sjúk hryssa var felld eftir blóðtökutímabilið en hún sýndi engin merki um sjúkleika við blóðtökur mánuðinn áður. Folöld og tryppi Ísteka hafa verið skipulega send til fortamningar sl. ár. Tvö tryppi veiktust á tamningastöðinni og annað drapst úr veikindum sínum sem var einhvers konar magakveisa.
Niðurlag
Hrossabúskapur til framleiðslu afurða; blóðs til lyfjaframleiðslu og folalda, sem að uppistöðu til fara í kjötframleiðslu, er eðlislíkur öðrum búskap að flestu leyti. Frávik, slys og afföll verða vissulega í þessari starfsemi eins og annarri en þau eru fá miðað við það sem þekkist úr öðrum rekstri. Það ber því þessu búskaparformi vel söguna, búskap sem getur hentað mun fleirum en nú þegar stunda hann. Markmiðið og stöðug vinna Ísteka er að skerpa sem kostur er á öllum verkferlum til að lágmarka frávik af hvaða tagi sem er, búskapnum í heild til framdráttar.
Færa má fyrir því sterk rök að fáar ef nokkrar skepnur í umsjá manna eigi völ á betra lífi en blóðnytjahryssur sem lifa frjálsar í högum undir virku eftirliti m.t.t. heilsu og velferðar í samræmi við 1. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, en þar segir: „Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“
Reykjavík, 12. desember 2023
Fyrirspurnir um efni þessarar tilkynningar sendist á khuga@isteka.com