Saga Ísteka
Fyrirtækið framleiddi á árum áður fullbúið lyf sem innihélt eCG auk þess að sinna lyfjaframleiðslu í verktöku þ.á.m. lyf fyrir menn.
Sérfræðiþekking fyrirtækisins er á sviði hreinsunar prótína og að uppfylla kröfur GMP (Good Manufacturing Practice, góðir framleiðsluhættir í lyfjagerð). Ísteka framleiðir einnig greiningarsett til útflutnings.
Á undanförnum árum höfum við endurskipulagt og stækkað aðstöðu okkar, rannsóknarstofur og framleiðslusvæði og lagt megináherslu á API framleiðslu eCG sem nú er aðal starfsemi Ísteka.
Söfnun blóðs úr íslenskum hryssum fyrir eCG framleiðslu hófst seint á áttunda áratug síðustu aldar og hefur farið fram æ síðan, þ.e. í yfir 40 ár og er því rótgróin landbúnaðargrein hér á landi. Hún er hliðargrein við framleiðslu folaldakjöts og í upphafi var blóðið flutt ómeðhöndlað til vinnslu erlendis.
Verksmiðjan sem Ísteka notar enn í dag, þó eftir miklar breytingar og uppfærslur, var sett á laggirnar árið 1985. Í dag notar Ísteka þaulreyndar aðferðir til að framleiða verðmæta lyfjaafurð, virkt lyfjaefni úr blóðinu sem nýtt er í hin ýmsu frjósemislyf.
Ísteka leggur áherslu á jöfn tækifæri allra til vinnu. Konur eru 52% af starfsfólki og 33% af stjórn fyrirtækisins. Karlar eru 40% stjórnenda. Hjá okkur starfar fjölbreyttur hópur fólks af ýmsum þjóðernum. Helmingur starfsfólks er háskólamenntað með allt frá BS til Ph.D. gráðu.
Tölur frá september 2023.
Við beitum háþróaðri tækni við próteinhreinsun og frostþurrkun fyrir atbeina okkar sérþjálfaða starfsfólks. Árið 2022 voru tekjur okkar um 1,8 milljarðar íslenskra króna og eigum við góða möguleika á frekari vexti í okkar núverandi mynd.