Blóðsöfnun
Allar hryssur á aldrinum 4 til 24 vetra eru tækar til blóðsöfnunar, séu þær við góða heilsu og í góðu líkamlegu ástandi. Bóndinn ber ábyrgð á sínum hryssum og allri umsjón með þeim, aðstöðu og starfsfólki sínu. Dýralæknir á vegum Ísteka er ábyrgur fyrir blóðtökunni sjálfri.
Í byrjun tímabils tekur bóndi eða dýralæknir lítið blóðsýni úr hverri hryssu til að ákvarða hvort tími sé kominn til að hefja blóðtöku.
Andrúmsloft við blóðtökur á að vera yfirvegað og forðast skal óþarfa hávaða. Hryssur á að meðhöndla gætilega í gegnum allt ferlið.
Þegar hryssa er komin inn í bás er hún mýld og skorðuð. Kennsl eru borin á hana og hún skoðuð af dýralækninum sem gengur úr skugga um að hún sé heilbrigð, nægilega róleg og hæf til blóðtöku.
Dýralæknirinn staðdeyfir hryssuna og kemur í kjölfarið blóðtökunálinni fyrir í hóstarbláæð (vena jugularis). Nálin er tengd við slöngu sem leiðir blóðið niður í brúsa sem er merktur með auðkennisnúmeri hryssunnar. Dýralæknirinn fylgist með hryssunni á meðan blóðtöku stendur. Einni blóðeiningu (5 lítrar) er safnað í hverri blóðtöku. Um leið og blóðtöku lýkur er hryssu sleppt aftur í hópinn þar sem er aðgengi að bæði vatni og salti. Áfram er fylgst með ástandi hennar í kjölfarið.
Sýni hryssa merki um óvenjuleg óþægindi eða álag skal stöðva blóðtöku og huga þegar að hryssunni.
Frávik við blóðtöku eru skráð. Ísteka tekur við skráningum, fer yfir þær og bregst við á viðeigandi hátt.