Um eCG
Uppgötvun eCG
- 1930
eCG er uppgötvað af Harold Cole og George Hart þegar þeir átta sig á því að það að sprauta blóðsermi úr fylfullum hryssum í ókynþroska rottur hvatar kynþroska þeirra. Lífvirka efnið í sermi sem miðlar þessum áhrifum fær nafnið pregnant mare serum gonadotrophin, eða PMSG.
- 1933
Harold Cole og R.F. Miller sýna fram á að PMSG geti hvatað egglos og gangmál í sauðfé utan fengitíma sem leiðir í ljós mögulega notkun þess í landbúnaði.
- 1938
Alþjóðlegur staðall fyrir PMSG er settur fram. Stuttu síðar hefst sala á PMSG lyfjablöndum. Þær eru upphaflega markaðssettar fyrir konur en sölu þeirra í þeim tilgangi er síðar hætt. Sala fyrir dýr heldur hins vegar áfram, upphaflega aðallega fyrir rannsóknir en í sífellt auknum mæli til hagnýttra nota eftir því sem rannsóknargögn um nytsemi þeirra safnast upp.
- 1943
Cole og Harold Goss komast að því að PMSG myndast og er seytt af svokölluðum legslímubollum sem eru eins konar totur sem umlykja fóstrið á yfirborði legslímhúðarinnar snemma á meðgöngu. Uppruni þeirra er óljós en er talinn vera frá móður.
- 1972
Robert Moor og W.R. Allen átta sig á því að legslímubollarnir eru í raun af fósturfræðilegum uppruna þar sem forveri þeirra er svokölluð æðabelgsgrind. Æðabelgsgrindin er þykk rönd af næringarþekjuvef sem umlykur fóstrið á dögum 25-35 í meðgöngu. Þetta leiðir til þess að PMSG er endurnefnt sínu núverandi formlega heiti, equine chorionic gonadotrophin, eða eCG.
- 1985
Framleiðsla á eCG hefst á Íslandi.
- 2023
eCG er mikilvægt innihaldsefni í fjölmörgum dýralyfjum og er notað víða um heim til að hvata og samstilla gangmál í dýrum, bæði búfénaði og villtum dýrum.
eCG sameindin
Líkt og nafnið gefur til kynna er eCG (equine chorionic gonadotrophin) gónadótrópín, þ.e. glýkóprótein hormón með kynkirtlaörvandi virkni.
Dæmi um önnur gónadótrópín eru FSH (follicle-stimulating hormone) og LH (luteinizing hormone). Þau eru framleidd af heiladinglinum en eCG er hins vegar framleitt af fylgjunni.
FSH og LH hafa samverkandi áhrif sem hvata egglos og vöxt eggbúa, sem gerir þau nauðsynleg til að viðhalda frjósemi.
eCG er með svipaða sameindabyggingu og eLH (equine LH) og binst því og örvar LH viðtakann í hestum.
Munurinn á eCG og eLH felst aðallega í glýkósýleringu, þar sem eCG er mest glýkósýlerað af öllum þekktum glýkópróteinhormónum í spendýrum.
Þessi mikla glýkósýlering eCG gerir það að verkum að sameindin er afar stöðug, með langan helmingunartíma í blóði.
Þegar eCG er sprautað í næstum öll önnur spendýr, þá binst það ekki aðeins við LH viðtakann, heldur einnig við FSH viðtakann. Þetta gefur því einstaka getu til að miðla bæði FSH- og LH-líkum viðbrögðum í öðrum dýrategundum en hestinum.
Ástæðan á bak við þessa tvöföldu virkni er ekki þekkt en líklega hefur hin mikla glýkósýlering eCG þar hlutverk.
Hin tvöfalda FSH- og LH-líka virkni og stöðugleiki eCG gera það mjög eftirsóknarvert til notkunar í dýralæknisfræði í meðhöndlun á frjósemi.
Seyting í blóð fylfullra hryssna
Í kringum dag 25 í meðgöngu hryssu á sér stað samruni þvagbelgs (allantois) og æðabelgs (chorion) fóstursins. Í kjölfarið þroskast æðabelgsgrindin (chorionic girdle) á mótum hins nýja þvagæðabelgs (allantochorion) sem er að þroskast og blómabelgsins (yolk sac) sem er að hrörna.
Æðabelgsgrindin er þykk rönd af næringarþekjuvef sem liggur hringinn í kringum fóstrið og alla þungunarvefi á þessum stað. Æðabelgsgrindarfrumurnar fjölga sér og verða tvíkjarna og á dögum 35-38 slítur æðabelgsgrindin sig frá hinum fósturhimnunum og frumurnar fara inn í þekjuvef legslímhúðarinnar.
Þegar grindarfrumurnar komast inn í grunnvef legslímhúðarinnar hætta þær að skipta sér, tapa flökkuvirkni sinni, stækka mjög og sérhæfast í fullþroskaðar legslímubollafrumur sem mynda legslímubollana (endometrial cups).
Þegar þetta gerist, á dögum 38-40 í meðgöngu, byrja legslímubollafrumurnar að seyta eCG sem má þar með greina í blóði fylfullu hryssunnar.
Legslímubollarnir ná hámarksvirkni og eCG hámarksstyrk í blóði í kringum daga 70-80 í meðgöngu. Í kjölfarið byrja bollarnir að hrörna og að lokum eyðileggjast þeir alveg.
Magn af eCG sem er seytt er mjög mismunandi á milli hryssna, bæði hvað varðar styrk og hversu lengi því er seytt.
Hlutverk eCG í hryssum
Hlutverk eCG í hryssum er ekki þekkt til hlítar.
Líklegast sér eCG um að hvata auka egglos og/eða gulbúsmyndun eggbúa og þar með viðhalda framleiðslu prógesteróns og meðgöngu þar til fylgjan tekur yfir það hlutverk.
Þrátt fyrir að virðast hjálpa til við að viðhalda meðgöngu hefur ekki enn verið sýnt fram á með óyggjandi hætti hvort eCG sé í raun og veru nauðsynlegt fyrir farsæla meðgöngu hjá hryssum.