Seyting í blóð fylfullra hryssna
Í kringum dag 25 í meðgöngu hryssu á sér stað samruni þvagbelgs (allantois) og æðabelgs (chorion) fóstursins. Í kjölfarið þroskast æðabelgsgrindin (chorionic girdle) á mótum hins nýja þvagæðabelgs (allantochorion) sem er að þroskast og blómabelgsins (yolk sac) sem er að hrörna.
Æðabelgsgrindin er þykk rönd af næringarþekjuvef sem liggur hringinn í kringum fóstrið og alla þungunarvefi á þessum stað. Æðabelgsgrindarfrumurnar fjölga sér og verða tvíkjarna og á dögum 35-38 slítur æðabelgsgrindin sig frá hinum fósturhimnunum og frumurnar fara inn í þekjuvef legslímhúðarinnar.


Þegar grindarfrumurnar komast inn í grunnvef legslímhúðarinnar hætta þær að skipta sér, tapa flökkuvirkni sinni, stækka mjög og sérhæfast í fullþroskaðar legslímubollafrumur sem mynda legslímubollana (endometrial cups).
Þegar þetta gerist, á dögum 38-40 í meðgöngu, byrja legslímubollafrumurnar að seyta eCG sem má þar með greina í blóði fylfullu hrysunnar.
Legslímubollarnir ná hámarksvirkni og eCG hámarksstyrk í blóði í kringum daga 70-80 í meðgöngu. Í kjölfarið byrja bollarnir að hrörna og að lokum eyðileggjast þeir alveg.
Magn af eCG sem er seytt er mjög mismunandi á milli hryssna, bæði hvað varðar styrk og hversu lengi því er seytt.