eCG sameindin

Líkt og nafnið gefur til kynna er eCG (equine chorionic gonadotrophin) gónadótrópín, þ.e. glýkóprótein hormón með kynkirtlaörvandi virkni.

Dæmi um önnur gónadótrópín eru FSH (follicle-stimulating hormone) og LH (luteinizing hormone). Þau eru framleidd af heiladinglinum en eCG er hins vegar framleitt af fylgjunni.

FSH og LH hafa samverkandi áhrif sem hvata egglos og vöxt eggbúa, sem gerir þau nauðsynleg til að viðhalda frjósemi.

eCG er með svipaða sameindabyggingu og eLH (equine LH) og binst því og örvar LH viðtakann í hestum.

Munurinn á eCG og eLH felst aðallega í glýkósýleringu, þar sem eCG er mest glýkósýlerað af öllum þekktum glýkópróteinhormónum í spendýrum.

Þessi mikla glýkósýlering eCG gerir það að verkum að sameindin er afar stöðug, með langan helmingunartíma í blóði.

Þegar eCG er sprautað í næstum öll önnur spendýr, þá binst það ekki aðeins við LH viðtakann, heldur einnig við FSH viðtakan. Þetta gefur því einstaka getu til að miðla bæði FSH- og LH-líkum viðbrögðum í öðrum dýrategundum en hestinum.

Ástæðan á bak við þessa tvöföldu virkni er ekki þekkt en líklega hefur hin mikla glýkósýlering eCG þar hlutverk.

Hin tvöfalda FSH- og LH-líka virkni og stöðugleiki eCG gera það mjög eftirsóknarvert til notkunar í dýralæknisfræði í meðhöndlun á frjósemi.