Gildi eCG í landbúnaði

Lyf sem innihalda eCG gera bændum kleift að:
Minnka vinnuálag og bæta áætlanagerð með því að stýra hvenær dýrin fá fang.
Auka frjósemi og þar með framleiðni dýra sinna.
Auka genafjölbreytileika og velja um leið fyrir ákveðnum eiginleikum með árangursríkum sæðingum.
Þetta hefur fjölmörg jákvæð áhrif, sem hægt er að flokka lauslega í þrjá flokka. Þeir eru:
Styrkir dreifbýl samfélög.
Treystir lífvarnir (biosecurity) bændabýla.
Grynnir umhverfisspor.

Hvernig styrkir eCG dreifbýlissamfélög?

Stýring fengitíma og frjósemi leiðir til betra jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar dýraafurða. Það kemur í veg fyrir offramboð afurða með tilheyrandi sóun og lækkun á afurðaverði á einum tíma og samsvarandi skorti á afurðum á öðrum tíma.
Landbúnaður verður þannig hagkvæmari og markvissari og styrkir grundvöll sveitanna.

Hvernig treystir eCG lífvarnir bændabýla?

Árangursríkar sæðingar draga úr þörf á flutningi á dýrum milli býla og lágmarka þar með hættu á að smitsjúkdómar læðist inn í bústofninn.
Árangursríkar sæðingar gera bændum kleift að velja dýr sem hafa hærra þol gegn sjúkdómum. Þannig minnkar þörf á læknismeðferðum og notkun lyfja.
Einsleitni í aldurssamsetningu hópa dregur úr innbyrðis áreiti og meiðslum sem aftur minnkar þörf á notkun sýklalyfja og þar með hættu á sýklalyfjaónæmi.

Hvernig grynnir eCG umhverfissporið?

Stýring fengitíma og frjósemi dregur úr þörf á innflutningi afurða með tilheyrandi sótspori.
Árangursríkar sæðingar gera bændum kleift að rækta afurðameiri stofna sem nýta þannig auðlindir á skilvirkari hátt.
Þekkt er að í ákveðnum framleiðslugreinum má fækka dýrum um 15% með notkun lyfja sem innihalda eCG án þess að draga úr afurðamagni. Þetta leiðir til minni notkunar auðlinda, s.s. vinnuafls, orku, húsnæðis, landrýmis, vatns og fóðurs.
Ef eingöngu er litið til fóðurhlutans og algengrar skammtastærðar/notkunar þá hefur verið reiknað út að eCG framleiðsla Ísteka sparar um milljón tonn af fóðri á ári.
Þar sem fóðurframleiðsla hefur stórt kolefnisfótspor þá grynnist umhverfissporið við notkun eCG. Þessi jákvæðu áhrif eru enn meiri þegar minnkuð þörf á öðrum auðlindum er tekin með í reikninginn.
Auk þess getur eCG komið að gagni við verndun villtra dýra. Það hefur verið notað við tæknifrjóvgun klaufdýra og kattardýra en einnig annarra dýrategunda eins og naflasvína, afrískra klófroska og íkornaapa.