Evrópsku félagasamtökin AWF/TSB sem kenna sig við dýravelferð hafa frá árinu 2019 heimsótt Ísland nokkrum sinnum til að ”rannsaka” hvernig gjafablóði er safnað úr hryssum.
Þau hafa kortlagt staðsetningar sveitabæja sem taka þátt í ferlinu og hafa óboðin nálgast bændur á þessum bæjum, bæði með beinum hætti og með njósnum.
Myndbandsupptökur og ljósmyndir úr földum myndavélum hafa verið birtar frá um það bil 10 sveitabæjum en enginn utan félagasamtakanna veit þó nákvæmlega hversu marga bæi þau hafa myndað eða hversu oft. Talið er að myndefni sem þeim hefur tekist að safna með njósnum telji a.m.k. tugi til hundruði klukkutíma.
Samtökin hafa birt nokkrar sekúndur af myndefni sem geta bent til vafasamrar háttsemi. Myndbandsefnið gefur að öðru leyti mjög bjagaða mynd af þessari rótgrónu búnaðargrein á Íslandi. Samtökin hafa nýtt sér það að meirihluti almennings var áður ómeðvitaður um þessa starfsemi og stýrt umræðunni þannig að bændur og atvinnugreinin í heild sinni birtist í neikvæðu ljósi.
Skilaboð þeirra eru að það sé ómögulegt að safna blóði úr hryssum án þess að það hafi alvarleg og neikvæð áhrif á heilsu og velferð dýranna. Krafan er sú að starfsemin eigi því að að vera bönnuð.
Hinsvegar vitum við, bændur og dýralæknar sem eru í stöðugu sambandi við hryssurnar á meðan blóðsöfnun fer fram, að þessar fullyrðingar þeirra eru ekki á rökum reistar. Mjög fá dýr í búskap lifa eins góðu og náttúrulegu lífi og þessar hryssur. Þær gefa blóð vikulega síðsumars (að hámarki átta sinnum) þannig að blóðgjöf hverrar hryssu tekur ekki meira en eina og hálfa klukkustund alls á ári.
Við erum sannfærð um að fengju þau valið, myndu öll hross fremur kjósa að vera blóðnytjahross. Lífsgæði þeirra út frá mælikvarða hests hvað varðar frelsi og aðgang að óspilltri náttúru eru mjög mikil og álag óvenju lítið. Fá ef nokkur dýr í haldi manna geta búist við eins góðum lífsskilyrðum.
Enn fremur, og að hluta til vegna þeirra efasemdafræja sem áðurnefndu samtökin hafa sáð í samfélaginu, er eftirlit, bæði innra og ytra (þar með talið frá hinu opinbera), mun strangara í þessari grein en í nokkurri annarri landbúnaðargrein. Raunar var meðalbær sem tók þátt árið 2024 skoðaður á 14% blóðgjafadaga, eða um það bil tvisvar sinnum að meðaltali á tímabilinu. Þar að auki er dýralæknir ávallt viðstaddur og metur hverja hryssu fyrir hverja blóðgjöf.
Blóðgjöfin er tæpast eftirlætis tími hryssunnar. Hún er skorðuð af í bás, sér og öðrum til öryggis. Það og nálarstungan getur valdið hryssu einhverjum óþægindum. Almenningi hefur verið sagt að þetta ferli sé sársaukafullt og valdi jafnvel þjáningu en fátt stendur sannleikanum fjær. Blóðgjöfin tekur innan við 0,02% af lífi þeirra (1,5 klukkustundir á hverjum 365 dögum). Hinum 99,98% tímans eyða þær mestmegnis úti í íslenskri náttúru, frjálsar með sinni hjörð. Getur þú ímyndað þér að lifa þínu draumalífi í skiptum fyrir svo lítið?
Í september 2024 njósnuðu samtökin um að minnsta kosti sex bóndabæi með földum myndavélum. Ljósmyndir og myndbönd frá þessum földu myndavélum voru birt eitt af öðru í sjónvarpi og á netinu, með framsetningu sem hönnuð var til að vekja samúð áhorfandans og lýsti aðstæðum sem voru í raun ekki til staðar.
Nú vill svo til að við vorum með öryggismyndavélar á tveimur þessara bæja á sama tíma. Við höfum því heildarsöguna sem samtökin hafa haldið frá almenningi.
Hér fyrir neðan er óklippt öryggismyndband frá einum af bæjunum sem samtökin tóku myndefni af í leyni og nýttu í sína herferð síðla árs 2024. Óklippta myndbandið sýnir blóðsöfnun úr öllum hryssum sem gáfu blóð á upptökudaginn. Ferlið tók í heild sinni rétt rúmar tvær klukkustundir.
Þetta myndband er ólíkt myndefninu sem félagasamtökin gáfu út að því leyti að:
- Það hefur ekki verið klippt – þetta er blóðsöfnunarferlið í heild sinni á býlinu þennan daginn, frá upphafi til enda.
- Hvergi hefur verið hægt á spilunarhraða í þeim tilgangi að gefa í skyn valdbeitingu.
- Engin döpur eða dramatísk tónlist heyrist sem ætlað er að vekja samúð hjá áhorfandanum.
- Enginn þulur er í bakgrunninum sem afvegaleiðir áhorfendur til að trúa því að þeir séu vitni að einhverju sem á sér ekki raunverulega stað í myndbandinu.
Eina myndvinnslan er sú að andlit á starfsfólkinu hafa verið falin, því til verndar.
Hér fyrir neðan er samanburður á myndum frá félagasamtökunum og myndum úr myndbandi Ísteka. Nálgast má upprunalega myndefnið á tímum 15:29 og 15:39 í myndbandinu (klukkan er efst á skjánum).

