Almennt um starfsemina á árinu 2024
Sumarið og haustið 2024 var unnið með hefðbundnum hætti við söfnun á blóði til vinnslu á lokaafurð Ísteka sem er eCG/PMSG hormónið, mikilvægur valkostur fyrir bændur um allan heim sem vilja nýta auðlindir náttúrunnar með sem hagkvæmustum hætti, sér og öðrum til góðs.
Í vor var hestum sleppt í hólf frá um 23. maí. Vegna ótíðar, sérstaklega norðanlands, frestuðu margir bændur þar sleppingu hests í stóð sem leiddi til þess að hryssur fyljuðust heldur seinna en venjulegt er. Blóðtökur hófust um miðjan júlí og lauk í október. Veðurfar í byrjun október var milt og því fékkst leyfi til framlengingar á blóðsöfnunartímabili um eina viku miðað við það sem vant er. Það kom bændum vel enda festu margar hryssur seinna fang en venjulega.
Fjöldi blóðtökuhryssna í ár var 4.225 og heildarfjöldi hryssna í stóðum bænda 5.030. Meðalhryssa í stóðum bænda gaf blóð í 5,1 skipti í ár en 6,0 sé eingöngu litið til þeirra sem fyljuðust og gáfu blóð. Alls var tekið blóð í um 25.500 skipti. Blóðtökuhópar voru um 100 talsins.
Árangur hryssna 2024
Hér að neðan má sjá hlutfallslega dreifingu á fjölda blóðtökuskipta hjá hryssum árið 2024. Meðaltal áranna 2019-2023 til samanburðar og staðalfrávik milli ára í sviga.
Skiptafjöldi hryssu | Hlutfall 2024 | Meðalhlutfall árin 2019-2023 (staðalfrávik milli ára í sviga) |
1 | 1,1% | 1,4% (1,0) |
2 | 7,8% | 6,1% (0,5) |
3 | 6,8% | 8,3% (1,1) |
4 | 6,0% | 7,9% (0,5) |
5 | 8,5% | 11,1% (1,5) |
6 | 12,0% | 15,1% (0,9) |
7 | 34,0% | 31,0% (2,0) |
8 | 23,8% | 19,0% (1,7) |
Hlutfall úrvalsgóðra hryssna hvað varðar þann þátt sem hér er verið að vinna með, (gefa blóð 7 og/eða 8 sinnum), fer enn hækkandi. Hlutfall þeirra var 57,8% á nýliðnu tímabili en 50,0% að meðaltali á viðmiðunartímabilinu. Bændur stunda kröftuga framþróun í þessum búskap sem lýtur jú sömu lögmálum og annar búskapur, afurðir hámarkaðar með sem fæstum gripum. Frjósemi þeirra og heilsa spilar þar lykilhlutverk.
Frjósemi hryssnanna í ár var tæplega 84% sem er töluvert betri en sést almennt í hrossarækt (70-80%) og aðeins lægri en meðaltal seinustu 5 ára þar á undan (85%). Blóðnytjabúskapurinn kemur einnig vel út í öðrum samanburði, svo sem í almennu heilsufari stofnsins og í þroska.
Framleiðslumagn og heimtur
Magn safnaðs blóðs jókst lítillega á milli áranna 2023 og 2024 eftir sögulegan samdrátt milli áranna 2021 og 2022. Skilaverð meðalhryssu var um 116 þúsund krónur án vsk. Sem fyrr sagði fer hlutfall 7 og 8 skipta hryssna hækkandi og nálgast nú 60% allra hryssna sem gefa blóð. Vegið meðalskilaverð 7 og 8 skipta hryssna í ár var um 160 þúsund krónur án vsk.
Eftirlit með blóðsöfnuninni á árinu
Dýravelferðareftirlit á vegum Ísteka
Eftirlitsdýralæknir fór 59 sinnum í sumareftirlit á blóðtökubæi. Í 44% tilfella voru engar athugasemdir gerðar, ein í 39% tilfella og tvær til þrjár í 17% tilfella. Algengasta athugasemdin snerti hófhirðu, næst komu athugasemdir varðandi umgengni og slysahættu eða aðstöðu og hönnun/ástand aðstöðu. Sjaldgæfar athugasemdir voru um skort á vatni eða salti, lausan hund og um ónóga mönnun. Aðrar eftirlitsheimsóknir ársins voru vetrareftirlit (16), aðstöðueftirlit (6) og sýnatökueftirlit (8).
Auk þess fór fram eftirlit á vegum viðskiptavina Ísteka, alls voru 11 bæir skoðaðir bæði norðan og sunnan heiða. Fjöldi minni athugasemda á einum bæjanna kallar á eftirfylgni. Ísteka mun vinna með viðkomandi varðandi úrbætur áður en næsta blóðtökutímabil hefst.
Eftirlit Matvælastofnunar
Þegar þessi skýrsla er skrifuð hefur Ísteka borist 73 skoðunarskýrslur úr reglubundnu eftirliti MAST frá blóðtökubæjum í ár. Að auki bárust tvær skýrslur vegna eftirfylgniskoðana MAST. Vitað er til þess að farið hafi verið í eftirlit á fleiri staði og því gætu eftirfarandi tölur breyst lítillega þegar þær skýrslur skila sér.
Hlutfall skýrslna án athugasemda er það sama og hjá eftirlitsdýralækni Ísteka, 44%. Ein athugasemd er gerð í öðrum 44% skýrslna og 2-5 athugasemdir í þeim sem eftir standa (12%).
Lang algengasta athugasemdin er um hófhirðu og þar á eftir kemur umgengni og slysahætta. Sjaldgæfari athugasemdir eru um slys/veikindi, skráningar gripa, salt/vatn, beitiland og holdastuðul gripa og um hönnun eða ástand aðstöðu.
Tvö frávik voru flokkuð sem alvarleg, annað um hófhirðu og hitt um skort á salti á blóðtökustað.
Ónóg hófhirða er algengasta athugasemdin við bæði eftirlit Ísteka og MAST. Það er þó ljóst af eftirlitsskýrslunum þar sem hófhirðu er ábótavant að það á í nær öllum tilfellum einungis við lítinn hluta stóðsins. Telja má að vel innan við 5% hryssnanna búi við slæma hófhirðu og tilfelli þar sem velferð grips er í hættu eru sjaldgæf. Ísteka hefur unnið við að þróa verklag sem gerir hófhirðu stóðhrossa auðveldari fyrir bændur og árangur af því verki kemur vonandi fram þegar á næsta ári.
Skráð frávik í blóðtökuskýrslum
Frávik kallast atburðir eða aðstæður sem upp koma og geta haft áhrif á líðan hryssu. Í ár var í þriðja sinn haldið skipulega utan um frávik í öllum blóðtökum í samræmi við ákvæði, nú brottfallinnar, reglugerðar nr. 900/2022 um blóðtöku úr fylfullum hryssum.
Blóðtökuskýrsla er fyllt út af dýralækni og fulltrúa Ísteka fyrir hvern blóðtökudag á hverjum bæ fyrir sig. Heildarfjöldi skýrslna í ár var 1014 en 44 skýrslur skiluðu sér ekki til skráningar. Heimtur voru því 96%.
Af ríflega 25.500 blóðtökum voru skráð frávik í 261 tilvika (1,0%). Langflest tilvik voru skráð vegna hryssna sem sýndu einkenni hræðslu/ótta (83%). Meirihluti þeirra jafnaði sig (róaðist) strax eða meðan á dvöl í bás stóð. Endurtekin frávik voru skráð hjá 25 hryssum, þar af tvö frávik hjá 20 hryssum, þrjú hjá 4 hryssum og ein hryssa var með 5 frávik skráð. Ráðleggingar Ísteka eru að eigendur hryssna, þar sem skráð eru frávik þrisvar sinnum eða oftar, venji hryssuna betur áður en hún er tekin til blóðtöku aftur eða finni henni nýtt framtíðarhlutverk.
Vert er að minnast á að orðalag í stöðluðum skýrslum við blóðtökur, gerir ekki ráð fyrir skilgreiningu á atferli einstaklinga við frávik, annarri en þeirri að hryssa sé að sýna hræðslu/ótta en það orðalag er í samræmi við birtar verklagsreglur.
Þetta er einfalda myndin, en þó er þekkt að atferlisfræði hrossa er flóknari en svo að öll frávik í hegðun geti skrifast á ótta. Hvert hross hefur sinn persónueiginleika.
Tilkynnt slys, veikindi og dauðsföll
Um langt árabil hefur verið haldið utan um slys, veikindi og dauðsföll gripa.
Skráð slys á hryssum á blóðtökutímabilinu voru 12 (0,24%), af þeim hafði blóðtaka þetta árið hafist hjá 7 hryssum en hjá 5 hryssum hafði ekki verið hafin blóðtaka eða að þær gáfu ekki það árið. Af tilkynntum slysum tengdist eitt blóðtökum (0,02%) en hin 11 varða ótengda atburði. Þá var tilkynnt um slys hjá tveimur folöldum.
Tólf (0,24%) tilkynningar voru um veikindi hryssna á blóðtökutímabilinu. Af þeim tengdust sex blóðtöku viðkomandi grips. Í öllum sex tilfellum jafnaði hryssa sig fljótt og vel, ýmist með eða án aðkomu dýralæknis. Í þeim tilfellum sem veikindi voru óviðkomandi blóðtökum jöfnuðu 4 hryssur sig fljótt og vel en ákvörðun var tekin um að fella tvær.
Á blóðtökutímabilinu var alls tilkynnt um eina dauða hryssu. Krufning leiddi í ljós tengsl á milli dauða hennar og blóðtökunnar. Tvö tilfelli folaldsdauða voru tilkynnt.
Um eigin hross
Ísteka var með 5 hópa í blóðnytjum á þremur stöðum á árinu, alls 280 hryssur eða tæp 6% af heildarfjölda hryssna. Af þeim fyljuðust 249. Meðalhryssan í stóðum Ísteka gaf 6,3 einingar og 7,0 sé eingöngu miðað við fyljaðar hryssur. Þetta er nokkuð yfir landsmeðaltalinu sem var sem fyrr sagði 5,1 og 6,0 í sömu röð.
Helstu frávik og atburðir í hópum Ísteka þetta ár voru eftirfarandi:
Fjögur hross drápust eða voru felld seinasta vetur. Hryssa fékk skurð á enni við hófaklippingu og var hún saumuð. Önnur kom slösuð úr stóðhestahólfi og var felld. Eitt folald kom slasað inn og annað fannst dautt, sjá einnig hér á undan. Öll ásett mertryppi Ísteka á fyrsta vetri voru send í fortamningu líkt og síðustu ár.
Myndatökur úr launsátri
Földum myndavélum var í algjöru óleyfi komið fyrir á 6 bæjum að sögn og fordæmir félagið nú sem fyrr slíka innrás á atvinnusvæði bænda. Af myndbrotum sem birt hafa verið úr þessum upptökum má sjá eitt atvik sem þarfnast sérstakrar skoðunar af hálfu Ísteka og er hún þegar hafin.
Niðurlag
Hrossabúskapur til framleiðslu afurða; blóðs til lyfjaframleiðslu og folalda sem að uppistöðu til fara í kjötframleiðslu, byggir á sömu grunnþáttum og annar búskapur. Frávik, slys og afföll verða vissulega í þessari starfsemi eins og annarri en þau eru fá. Það ber þessu búskaparformi vel söguna, búskap sem getur hentað mun fleirum en nú þegar stunda hann. Markmið og stöðug vinna Ísteka er að skerpa sem kostur er á öllum verkferlum til að lágmarka frávik af hvaða tagi sem er, búskapnum í heild til framdráttar.
Helstu úrbótatækifæri greinarinnar liggja á sviði hófhirðu og fortamninga. Einnig að huga að ásýnd og bættri aðstöðu við samrekstur og sundurgreiningu í rétt með það í huga m.a. að draga úr hinni vandmeðförðu meðferð píska og prika.
Færa má fyrir því sterk rök að fáar ef nokkrar skepnur í umsjá manna, bæði húsdýr og gæludýr, eigi völ á betra lífi en blóðnytjahryssur sem lifa frjálsar í högum undir virku eftirliti m.t.t. heilsu og velferðar í samræmi við 1. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, en þar segir: „Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“
Reykjavík, 17. desember 2024
Fyrirspurnir um efni þessa yfirlits sendist á khuga@isteka.com