Fréttablaðið fór rangt með – Ekkert bann samþykkt í Hollandi

Á vef Fréttablaðsins birtist að kvöldi miðvikudagsins 16. mars s.l. frétt undir fyrirsögninni „Hollendingar banna blóðmerahormón“. Í fréttinni segir m.a.: „Neðri deild hollenska þingsins kaus með miklum meirihluta á þriðjudaginn að banna innflutning og framleiðslu á hormóninu PMSG (e. Pregnant Mare Serum Gonadotropin), sem fengið er úr fylfullum hryssum með blóðtöku.“

Af þessu tilefni vill undirritaður koma því á framfæri að umrædd frétt er röng. Vegna fréttarinnar leitaði undirritaður eftir upplýsingum um sannleiksgildi hennar og bárust fyrr í vikunni tvö meðfylgjandi skjöl sem útbúin voru á ensku.

· Annað skjalið, sem er hér neðar í þessu skjali (Written report TK topic PMSG 20220221_autotranslate EN) inniheldur fyrirspurnir frá fulltrúum Dýraflokksins (Party for the Animals group) til landbúnaðar-, náttúru- og sjávarútvegsráðherra sem svaraði með bréfi þann 15. febrúar 2022.

· Hitt skjalið, einnig neðar í þessu skjali (Two minute debate PMSG Dutch parliament 20220308_auto translate EN) inniheldur uppskrift af þeim hluta umræða í þinginu ytra dagana 6.-8. mars, sem varðar blóðtökur úr fylfullum hryssum og dýralyf með PMSG. Umræðunni lauk 15. mars með atkvæðagreiðslu þingsályktunar um flýtingu endurskoðunar á gildandi dýralyfjareglugerð (2019/6), sem tók gildi 28. janúar 2022 og endurskoða á með nýrri reglugerð 28. janúar 2025. Með atkvæðagreiðslunni 15. mars var samþykkt að flýta þeirri endurskoðunarvinnu með það að markmiði að ný reglugerð með endurskoðuðum ákvæðum taki gildi fyrr en 2025.

Eins og fram kemur neðst í síðara skjalinu var ekki um neina samþykkt að ræða um bann við blóðmerahormóni á þinginu í Hollandi eins og Fréttablaðið fullyrti, heldur hvatningu til„hraðari innleiðingar á kröfum um velferð dýra við framleiðslu dýralyfja“ (…faster introduction of animal welfare requirements for the production of veterinary medicinal products). Þingmönnum þar eins og hér er fullheimilt að álykta um hin ýmsu málefni en mikilvægt er að því sé ekki ruglað saman við nýja löggjöf eins og skilja mátti af fyrirsögn og inngangi fréttar Fréttablaðsins.

Þess má geta að í svari ráðherrans 15. febrúar s.l. til Dýraflokksins, sem krefst sölubanns á PMSG í Evrópu, kom m.a. fram að dýralyf með PMSG séu leyfileg á hollenskum markaði í samræmi við gildandi evrópureglur. Ráðherrann taldi því engan grundvöll fyrir því að afnema markaðsleyfi þessara lyfja á grundvelli þeirra krafna sem Dýraflokkurinn setti fram.

Undirritaður harmar það hve stór hluti fréttaflutnings af blóðhryssum og afurðum þeirra sem birtur hefur verið á seinustu mánuðum hefur verið villandi og vonar innilega að það sé eingöngu vegna handvamma við vinnslu. Allt of algengt hefur verið í þessari hríð að hið réttasé sveigt til og stundum svo mjög að sannleiksgildið hefur horfið með öllu. Dæmin eru fjölmörg og er e.t.v. nærtækast að nefna þá lífseigu fullyrðingu ýmissa aðila að blóðsöfnun úr hryssum sé bönnuð víða um lönd, nokkuð sem ég hef hvergi getað sannreynt. Mikilvægar vörur eru enda unnar úr blóði dýra mjög víða og eru þær blóðtökur sem stundaðar eru á Íslandi ekki eðlisólíkar þeim sem þekkjast annars staðar. Að lokum vil ég nota þetta tækifæri og ítreka boð mitt um fræðslu um málefnið til handa þeim sem þess óska.

Virðingarfyllst, Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka. arnthor@isteka.com